: Daniel Zimakoff
: KF Mezzi 1-10
: SAGA Egmont
: 9788726915631
: 1
: CHF 7.30
:
: Erzählerische Bilderbücher
: Icelandic
: 309
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Hér er að finna bækur nr. 1-10 í vinsælu seríunni um fótboltaliðið KF-Mezzi.KF Mezzi er sería af fótboltabókum eftir Daniel Zimakoff. Serían fjallar um vinina Tómas, Sölva og Berg og gleði þeirra og vandamál með þjálfara, félaga og andstæðinga. Þeir taka þátt í að stofna fótboltaliðið KF-Mezzi, sem er blandað lið, því það eru líka stelpur með í liðinu.-

Daniel Zimakoff fæddist árið 1956 og er lærður bókasafnsfræðingur, en hefur starfað við ýmislegt, hann vann meira að segja sem leikari áður en hann gerðist rithöfundur. Frá árinu 1980 hefur hann skrifað fjöldann allan af barnabókum og vann til barnabókaverðlauna danska menningarmálaráðuneytisins árið 2004. Þegar hann er ekki upptekinn við að skrifa spilar hann fótbolta, blak, veggtennis, tennis, les bækur, horfir á sjónvarp og keyrir mótorhjól.

2. Kafli


Ég greip í bremsuna og fjallahjólið mitt skransaði restina af leiðinni, svo ég náði að grípa í garðhliðið án þess að stíga af hjólinu. Sölvi stóð þarna í Barcelonatreyjunni sinni og sparkaði bolta í markið. Boltinn var akkúrat sjö metra frá markinu. Ég mældi það sjálfur. Markmaðurinn, Nesi, var pappafígúra sem ég og Sölvi höfðum sett saman. Nesi hét eftir Hannesi Þór Halldórssyni sem var í marki í landsliðinu.

Stutt hlaup fram. Búmm! Boltinn fór vinstra megin við Nesa, sem átti ekki séns. Sölvi var sko með hörku vinstri fót.

Ég klappaði.

„Hei, Tómas. Ég er að koma.“ Sölvi náði í hjólið sitt. Manchester United taskan var föst aftan á og svo hjóluðum við 6,5 kílómetra á Vorvelli til að fara á æfingu. Það voru fjórtán gráður úti og sól. Vorið var komið til að vera.

„Heldurðu að við komumst fljótlega í A-liðið?“ spurði Sölvi.

„Kannski á næsta tímabili.“

„Ég vona það.“

„Það væri svo kúl.“ Ég sagði Sölva hvernig Daníel hefði hrósað okkur. Ég gat séð framtíð mína í boltanum fyrir mér. Fyrst var að komast í A-liðið, svo landsliðið, svo loksins atvinnumennskuna í FC Barcelona sem yngsti leikmaðurinn sem þeir hefðu tekið inn.

Við hjóluðum gegnum Nýjabrunn, framhjá myllunni, og kringum húsið sem var búið að vera á sölu í fimm ár, og stoppuðum við síðasta húsið í þorpinu. Hér átti Bergur heima. Við vorum allir í sama bekk í Vorvallaskóla. Fjórða bekk.

Bergur var sá okkar sem vissi mest um fótbolta. Hann þekkti öll liðin og hvern einasta leikmann í Englandi, Þýskalandi og Hollandi, meira að segja Spáni. Hann var líka góður í fótbolta, en hann var örlítið „þéttur“ og honum þótti ekki jafn gaman að æfa og okkur hinum.

Við þurftum að bíða eftir Bergi í fjórar mínútur, og þurftum fyrir vikið að spæna áfram til þess að verða ekki of seinir.

„Á mínútunni, piltar,“ sagði Daníel. „Við skulum byrja á því að hlaupa aðeins.“

Bergur andvarpaði.

Við vorum 17 á æfingunni, sem var rétt nóg til að skipta í tvö sjö manna lið. Það urðu að vera níu eða tíu í leik, en það myndu örugglega fleiri strákar byrja að mæta þegar það yrði aðeins hlýrra úti.

Sölvi og ég vorum bestu hlaupararnir og vorum í besta forminu. Það var örugglega af því við þurftum að hjóla á æfingu og svo spiluðum við líka fótbolta í skólanum og heima. Bergur var síðastur til að klára hringinn. Hann var allur rauður í framan og náði varla andanum.

„Ég elska fótbolta, en ég hata að hlaupa,“ sagði hann.

Eftir upphitun æfðum við innanfótarsendingar á þremur mismunandi stöðvum. Ég var ekki á sömu stöðvum og Sölvi eða Bergur, en ég var með tveimur strákanna úr A-liðinu, Felix og Axel.

Var þetta merki um eitthvað? Þeir spörkuðu fast, miklu fastar en þurfti.

„Ekki svona fast, Felix!“ kallaði Daníel. Hann var pabbi Felix. „Þú verður að nota innanverðan fótinn.“ Hann greip um ennið. „Ó, eigum við að æfa skalla?“ spurði Felix.

Nokkrir strákann hlógu. Ég hló smá líka. Ég vildi ekki styggja Felix. Hann var aðalmaðurinn í A-liðinu.

Axel og Felix voru alltaf aðeins of mikið að grínast, og svo þurftu allir að gera 20 armbeygjur í refsingu.

Axel var í sama skóla og við en Felix og þeir í A-liðinu voru í stóra skólanum í Gerðarhöfn. Þegar við færum í sjöunda bekk myndum við líka fara þangað.

 

Eftir æfingu sagði Daníel okkur hverjir myndu spila um helgina og hvernig skipt yrði í liðin. Hann las upp A-liðið fyrst. Ég hlustaði vandlega, en var ekki vongóður. Auðvitað yrði ég ekkert í A-liðinu.

En þá … var Sölvi lesinn upp númer 7. Hann horfði á mig, undrandi en glaður. Ég gaf honum þumalinn. Flott hjá honum. „Og Axel er númer 8,“ sagði Daníel. „Og Tómas er númer 9.“

Glæsilegt! Sölvi blikkaði mig. Við vorum í liðinu. En ef maður pælir í því, þá vorum við búnir að mæta á allar æfingar allan veturinn, meira að segja þegar það var snjór og klaki á vellinum.

„Lúkas og Jói fara í B-liðið, en þið getið unnið ykkur aftur upp.“

Lúkas kinkaði bara kolli. Jói kastaði skónum sínum ofan í töskuna.

Bergur var ennþá í B-liðinu. Hann virtist örlítið vonsvikinn.

Við kvöddum Berg við Nýjabrunn, og þá fórum við virkilega að fagna. Við gáfum hvor öðrum fimmur uppi á hæð. Jess! Við vorum búnir að færa okkur upp í A-liðið!

„Þetta er svo gott,“ sagði Sölvi. „Ég get ekki beðið eftir að segja Kára“

„Skil þig.“

Kári var stóri bróðir Sölva og hann var virkilega góður í fótbolta. Kári var í raun millinafnið hans, en allir kölluðu hann Kára. Hann var 19 ára og hafði spilað í A-liði KG - Knattspyrnufélagi Gerðarhafnar, þar til hann meiddist í hnénu á síðasta ári. Sölvi talaði oft um það. Hann lenti í svakalegri tæklingu. Hann sá leikinn, en Kári þurfti að hætta að spila. Hann hefði getað komist í landsliðið, en lenti í einni ljótri tæklingu og draumurinn var úti.

„Ég vona að Felix verði ekki of pirrandi,“ sagði ég. „Þú veist, ef einn okkar klúðrar boltanum og það kostar okkur mark.“

„Hafðu ekki áhyggjur af honum. Hann heldur að hann sé bestur í liðinu, bara af því pabbi hans er þjálfarinn.“

„Já. Ég trúi ekki að Daníel hafi ekki dæmt á hann víti síðast.“

„Pældu ekki í því. Við verðum bara að hafa trú á okkur sjálfum, eins og Kári segir alltaf.“ Sölvi hringdi bjöllunni sinni.

Ég hjólaði eins hratt og ég gat síðasta spölinn heim. Sölvi var alltaf bjartsýnn, og hann var nokkuð skemmtilegur. Ég vildi óska að ég væri meira eins og hann. Ég lét mig dreyma um glæsta ferilinn minn aftur og þegar ég hjólaði gegnum garðhliðið, hafði ég rétt nógu mikinn tíma til þess að skora þrennu á Heimsmeistaramótinu.

Ljúfeng lyktin af kjúkling mætti mér þegar ég opnaði dyrnar.

„Hæ Tómas!“ kallaði pabbi úr eldhúsinu. „Maturinn verður til þegar þú ert búinn í sturtu. Mundu að setja óhreinu fötin í þvottakörfuna.“

Ég beið þangað til við byrjuðum að borða með að segja þeim að ég hefði verið valinn í A-liðið.

...