: Grimmsbræður
: Ævintýri
: SAGA Egmont
: 9788728036242
: 1
: CHF 7.20
:
: Erzählende Literatur
: Icelandic
: 570
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Í þessu safni af þjóðsögum og ævintýrum Grimmsbræðra, í þýðingu Theodórs Árnasonar, gefst einstakt tækifæri til þess að rifja upp kynnin við gamalkunnar persónur úr heimsþekktum ævintýrum en ekki síður að uppgötva önnur minna þekkt ævintýri sem einnig er að finna í þessum heimsbókmenntum. Ævintýri Grimmsbræðra eru löngu orðin þekkt um allan heim enda verið þýdd á fleiri hundruð tungumál. Þjóðsögur Grimmsbræðra hafa tekið töluverðum breytingum í aldanna rás án þess þó að missa upprunalegan boðskap sinn og í dag ganga þjóðsögur Jacobs og Wilhelms einfaldlega undir nafninu Ævintýri Grimmsbræðra.

Bræðurnir Jacob og Wilhelm fæddust í Þýskalandi. Þeir voru málvísindamenn og sömdu þjóðsögur til að efla og styrkja þjóðsagnalist heimalandsins. Bræðurnir nutu töluverðrar hylli fyrir þjóðsögur sínar á 19. öld þótt margar þeirra hafi þótt verulega óhugnalegar. Meðal annarra þekktra ævintýra Grimmsbræðra eru Mjalllhvít, Rauðhetta og Öskubuska.

Ferðaævintýri Þumals litla.


Skraddari nokkur átti einkason, sem var svo smávaxinn, að hann var ekki nema þumlungur á hæð. Þess vegna var drengurinn nefndur Þumall litli. En hugaður var hann, hnokkinn sá, þótt ekki væri hann hár í loftinu. Einu sinni kom hann að máli við föður sinn og sagði við hann: „Nú halda mér engin bönd lengur; — ég verð að fara að heiman til þess að litast ofurlítið um í henni veröld“.

„Það likar mér vel, sonur sæll“, svaraði gamli maðurinn. Hann tók langa stagnál, bræddi lakk á annan endann á henni og fékk syni sínum hana: „Hér er sverð, sem þú skalt hafa með þér í ferðalagið“.

Skraddarasonurinn ætlaði nú að snæða dagverð með foreldrum sínum í síðasta sinni áður en hann legði af stað í leiðangurinn, og fór fram í eldhús til að hnýsast eftir því, hvaða góðgæti móðir hans væri að matbúa. Maturinn var tilbúinn, og potturinn stóð á hlóðunum.

„Móðir mín“, sagði Þumall litli, „hvað ætlarðu að gefa okkur gott að borða í dag?“

„Þú getur sjálfur séð, hvað er í pottinum“, svaraði hún.

Þumall litli stökk nú upp á hlóðarsteininn og gægðist ofan í pottinn. En honum varð það á að teygja sig fulllangt inn yfir pottbarminn, svo að gufan úr pottinum náði tökum á honum og feykti honum upp um eldhússtrompinn.

Hann sveif nú í háa lofti með gufunni um stund, en féll síðan til jarðar. Og nú var litli skraddarinn kominn út í veröldina. Hann ferðaðist um ýmsar sveitir og fékk loks atvinnu hjá skraddarameistara. En illa féll honum fæðið, sem hann fékk í þeirri vist.

Hann hafði orð á því við skraddarafrúna og mælti: „Húsmóðir góð! Ef maturinn verður ekki betri hjá yður framvegis en hann hefur verið hingað til, þá tek ég mig til í fyrramálið og skrifa með krít á húsdyrnar ykkar: Hér er skammtað of mikið af kartöflum, en allt of lítið af kjöti! Og hafðu það, kartöflukerling! “

„Hvað ert þú að steyta þig, aftur-úr-kreistingurinn þinn?“ sagði konan, greip lepp, sem var við höndina, og ætlaði að slá Þumal litla með honum. En hann skauzt þá undir fingurbjörg, gægðist undan henni og rak út úr sér tunguna framan í kerlingu. Hún tók fingurbjörgina upp og ætlaði að gripa Þumal, en þá faldi hann sig í leppahrúgunni á borðinu, og þegar skraddarafrúin fór að leita að honum þar, stökk hann ofan í rifu á borðinu: „Hí, hí, skraddarafrú!“ skríkti hann og teygði höfuðið upp úr rifunni. En þegar hún ætlaði að slá til hans, skauzt hann ofan í borðskúffuna. Þar náði konan honum eftir langa mæðu og rak hann á dyr.

Nú fór Þumall litli aftur á flakk, og lá leið hans um mikinn og dimman skóg. Þar rakst hann á ræningjaflokk, — en ræningjarnir voru þá einmitt að ráðgera að ræna fjárhirzlu kóngsins. Þegar þeir komu auga á Þumal litla, sögðu þeir sín á milli: „Þennan snáða ættum við að fá í lið með okkur. Hann gæti orðið okkur að ómetanlegu gagni, því að hann er svo lítill, að hann getur smogið inn um skráargatið og opnað fyrir okkur“.

„Heyrðu, Goliat — kappinn snjalli!“ kallaði einn þeirra til Þumals. „Myndir þú ekki vilja slást í för með okkur þangað, sem kóngurinn geymir allt gullið sitt? Eflaust má finna þar einhverja smugu, sem þú getur smogið um, — og svo fleygir þú gullinu út til okkar“.

Þumall litli hugsaði sig um stundarkorn, en fellst síðan á þetta. Fór hann síðan með þeim til hvelfingarinnar, þar sem gullið var geymt. Þegar þangað kom, athugaði hann hurðina hátt og lágt og fann brátt nægilega stóra rifu og ætlaði að smeygja sér inn um hana. En annar varðmaðurinn, sem dyranna gætti, kom auga á hann í sömu svifum og sagði: „Þetta er ógeðsleg könguló. Ég held ég verði að stíga ofan á hana“. „Æ-i-nei!“ varð hinum varðmanninum að orði, „láttu vesalings kvikindið í friði. Það hefur ekkert gert þér“. Og Þumall litli komst heill á húfi inn í fjárhirzluna, opnaði gluggann, þar sem ræningjarnir biðu úti fyrir, og fór að henda út til þeirra gulldölunum, hverjum af öðrum.

Hann hamaðist eins og hann ætti lífið að leysa. En allt í einu heyrði hann, að kóngurinn var að koma til þess að lita eftir gullinu sínu. Þá flýtti Þumall sér að fela sig. Kóngur sá strax, að einhverju hafði verið stolið af gullinu, en honum var alveg óskiljanlegt, hvernig það hefði getað átt sér stað, því að allir lásar voru í bezta lagi og slagbrandarnir lika. En um leið og hann fór, sagði hann við varðmennina: „Nú ríður mikið á, að þið séuð vel vakandi og hafið góðar gætur á gullinu, því að einhverjir eru að reyna að ræna því“.

Þegar Þumall litli var byrjaður á starfi sínu aftur, heyrðu varðmennirnir glymja í gullinu. Þeir ruddust þá inn í hvelfinguna með miklu írafári og ætluðu að handsama þjófinn. En Þumall litli varð þeim skjótari í snúningum, og þegar hann heyrði til þeirra, skauzt hann út í eitt hornið og lagði einn gulldalinn ofan á sig, svo að þeir sáu hann ekki. Hæddist hann nú að varðmönnunum og hrópaði til þeirra: „Ég er hérna!“ Þeir runnu á hljóðið, en fundu engan, því að Þumall litli var þá þegar kominn út í annað horn og búinn að fela sig þar undir öðrum gulldal. Þaðan kallaði hann aftur: „Hí, hí, — ég er hérna!“ Og verðirnir hlupu þangað, en þá var Þumall litli kominn í þriðja hornið og kallaði: „Hí, hi, hi! Hérna er ég!“ Og svona hélt hann áfram að gabba þá og láta þá elta sig fram og aftur um hvelfinguna, þangað til þeir voru orðnir dauðuppgefnir og hypjuðu sig á burtu.

Nú tók Þumall litli til óspilltra málanna og fleygði því, sem eftir var af gullinu, út til ræningjanna. Seinasta dalnum þeytti hann af öllu afli, en stökk um leið fimlega upp á röndina á honum og flaug þannig sjálfur út um gluggann. Ræningjarnir hrósuðu honum á hvert reipi fyrir þetta afrek og sögðu: „Þú ert sannarlega karl í krapinu, þó að lítið fari fyrir þér. Og mikið happ væri það fyrir okkur, ef þú vildir gerast höfðingi okkar“. En Þumall litli afþakkaði það virðulega boð, því að hann kvaðst enn eiga eftir að sjá svo mikið af heiminum. Skiptu þeir nú þýfinu á milli sín, en ekki tók Þumall litli nema einn smápening í sinn hlut, því að hann gat ekki borið meira. Hann var svo lítill.

Hann girti sig nú aftur sverðinu, kvaddi ræningjana og hélt áfram ferðinni. Enn...