: Erling Poulsen
: Elskaðu mig (Rauðu ástarsögurnar 7)
: SAGA Egmont
: 9788728353776
: 1
: CHF 5,60
:
: Erzählende Literatur
: Icelandic
: 197
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Þrátt fyrir að Jörgen Arthur Dam sé farsæll arkitekt þykir honum líf sitt og hjónaband heldur gleðisnautt. Hann tekur loks af skarið og yfirgefur heimili sitt í von um betra líf. Fljótlega áttar hann sig á því að leitin að hamingjunni gengur ekki þrautalaust fyrir sig. Eftir örlagaríka nótt á Pension Granly gistiheimilinu flækist Jörgen óvænt í tilfinningaþrunginn ástarþríhyrning sem mun færa honum erfiðleika en jafnframt óvænta gleði.

Erling Poulsen (1919-1995) var danskur blaðamaður og rithöfundur. Hann skrifaði fjölda skáldsagna í flokki afþreyingarbókmennta, sem nutu mikilla vinsælda á sínum tíma. Ásamt því að skrifa undir eigin nafni notaðist Poulsen einnig við dulnefnin Bodil Forsberg og Else-Marie Nohr. Þekktasta skáldaga hans er 'Drømmen om det hvide slot', sem var gerð að kvikmynd árið 1962 undir leikstjórn Anker Sørensen.

FYRSTI KAFLI


— Lækkaðu í útvarpinu, kallaði einn gestanna.

— Já, herra, sagði barþjónninn og hélt ótruflaður áfram samtali sínu við dökkhærða unga stúlku, sem stóð við barinn og dreypti á vermút-glasi. Um leið kom nýr gestur inn, hár, ungur maður með dökkt, hrokkið hár.

— Við lýsum eftir manni, sagði útvarpið, en enginn virtist hlusta.

— Sherry, þökk fyrir, sagði nýi gesturinn og fór úr grænum herfrakka og tók vindlingapakka úr ytri vasa á ljósri leðurmöppu.

— Þurran eða sætan? spurði barþjónninn.

— Þurran. Ungi maðurinn settist á einn barstólinn og leit andartak á ungu stúlkuna. Hún var ekki stúlka, sem venjulegt var að hitta á börum.

— Við endurtökum lýsinguna, sagði útvarpið. — Lýst er eftir þrítugum arkítekt, Jörgen Arthur Dam, sem yfirgaf heimili sitt í Kaupmannahöfn á mánudagsnóttina og álitið er að flakki um. Jörgen Arthur Dam er 188 cm, sterklega vaxinn með dökkt, hrokkið hár og grá augu. Þegar hann fór að heiman var hann klæddur Prince of Wales-köflóttum jakka, ljósum buxum, hvítri skyrtu, en bindislaus og í grænum herfrakka. Hann var í brúnum skóm með hrágúmsólum og hafði með sér ljósbrúna leðurmöppu með vasa utaná. Þeir, sem gætu gefið upplýsingar . . .

— Lækkaðu útvarpið, kallaði annar bargestur. — Eða slökktu á því.

Í þetta skipti slökkti barþjónninn.

Maðurinn, sem hafði pantað sherrý, tæmdi glas sitt og sagði: — Látið mig fá whisky, þurrt. Hann saug vindlinginn fast og starði tómlega á þögult útvarpstækið.

Barþjónninn afgreiddi hann og lét síðan plötustafla á grammófóninn. Brátt fylltist staðurinn af lágværri tónlist.

Barþjónninn var kallaður að aftasta borðinu og stúlkan og ungi maðurinn urðu ein eftir við barinn.

— Það var þér, sem auglýst var eftir í útvarpinu, var það ekki? sagði hún. Hún settist á barstól og dró vindling upp úr axlatösku sinni.

Hann svaraði ekki, en saup stóran sopa, kveikti svo á eldspýtu og kveikti í vindlingi hennar. Yfir logann sá hann björt augu hennar og sólbrúnt andlitið. Falleg, hugsaði hann og virti fyrir sér búnað hennar. Hún var í bláum gallabuxum og þröngri, hvítri peysu og á höfðinu hafði hún prjónahúfu með dúsk úr sams konar garni og peysan.

Ástin mín hefir rautt hár og tárvot augu, söng djúp rödd. Tónlistin og textinn virtust hafa undarleg áhrif á andlitssvip unga mannsins, sem varð skyndilega sársaukafullur og fjarrænn.

— Það er oft verst fyrir þá, sem sitja heima fullir kvíða, sagði stúlkan.

— Jæja. Ungi maðurinn leit undan og rödd hans var hörð og bitur.

— Ég hefi sjálf setið og beðið og verið hrædd, hélt stúlkan áfram. — Það eru tvö ár síðan. Ég bjó þá með eldri bróður mínum. Einn daginn hvarf hann hljóðalaust. Ég lét lýsa eftir honum í útvarpinu. Það dugði ekki. Það var ekki fyrr en mörgum mánuðum síðar, að ég frétti, að hann flakkaði um Jótland og liði ágætlega. En þá var ég næstum orðin sjúk af skelfingu yfir að eitthvað óttalegt hefði komið fyrir hann.

Meðan hún talaði, fálmaði hann í brjóstvasa jakkans. Hann dró upp litla keðju, sem þrír litlir birnir voru festir við, einn hvítur, annar rauður og sá þriðji blár. Einkennilegt leikfang fyrir fullorðinn mann, hugsaði hún, þegar hann fitlaði við það í lófa sér.

— Frá hverju hafið þér hlaupizt? spurði hún frjálslega. Hún dreypti á glasi sínu og horfði á hann gráum augunum. — Konu og börnum?

— Engin börn, sagði hann þreytulega.

— En sem sagt konu. Hvers konar?

— Verstu tegund, stundi hann. — Einni af þeim, sem elska menn sína þannig, að þeir stynja undir því.

Hún brosti hlýlega. Gáfulegt bros, hugsaði hann. — Ástin getur verið byrði, sagði hún. — Stundum verður maður að leysa sig frá henni, en maður má aldrei sparka í hana. Hringið heim og látið hana vita, að þér séuð lifandi og með fullri rænu.

Hann sneri frá henni og yppti öxlum. Þá heyrði hann eitthvert þrusk innan við barborðið. Hann teygði sig og sá, að í horninu lá hvolpur, lítill, grábrúnn schefer.

Ástin mín hefir rautt hár og tárvot augu, söng dægurlagasöngvarinn. — Ég ætla að borga, sagði ungi maðurinn, þegar barþjónninn kom aftur.

— Þökk fyrir, sagði þjónninn og sótti tvo miða í kassann. Í leiðinni ávarpaði hann hundinn: — Jæja, King. Hvernig gengur?

— Irene, sagði hann, þegar hann sá, að unga stúlkan bjóst einnig til að fara. — Bíddu, þangað til barinn lokar. Ég verð að tala betur við þig.

— Þar til barinn lokar? Nei, Benny. Ég er þegar búin að vera alltof lengi. Þú veizt, að mér leiðist að hanga á börum.

— Irene. Þú getur blátt áfram ekki neitað slíku tilboði. Það er einstæður möguleiki fyrir okkur bæði. Okkur eru tryggðar 75 krónur á dag og ráðningin tekur til alls sumarsins.

Hún ýtti frá sér tómu glasinu og drap í vindlingnum. — Mér þykir það leitt, Benny, en þú verður að fá aðra til að æfa þetta dansatriði með þér. Ég get það ekki og vil það ekki. Hún stóð upp, greip rauðu axlatöskuna og fór.

— Irene, bíddu. Ég kem með þér. Bíddu í fimm mínútur.

Hún hristi höfuðið án þess að líta við. Ungi maðurinn í græna frakkanum gekk á eftir henni, hægum, rólegum skrefum.

Barþjónninn var ekki fyrr orðinn einn, en hann teygði sig í símann og hringdi í vin sinn, sem hann bað um að koma og leysa sig af á barnum.

 

— — —

 

Fólk hraðaði sér framhjá þeim á gangstéttinni og neónljósin blikuðu yfir höfðum þeirra. Út um dyrnar bárust síðustu tónar lagsins:Maður vaknar um nótt og minnist . . .

— Já, sagði hann, þegar þau gengu eftir gangstéttinni. — Maður vaknar um nótt og minnist og segir við sjálfan sig: Jörgen. Nú hefirðu sóað fimm beztu árum æsku þinnar í gleðisnautt hjónaband og gleðisnautt starf. Nú er nóg komið. Hættu. Taktu pokann þinn og farðu út í heiminn og skapaðu þér nýtt líf, sem er þess virði að lifa því. Eftir fimm ár enn, jafnvel tvö ár, kann það að vera of seint.

Hún stanzaði hjá lágri timburbyggingu.

— Búið þér hér? spurði hann.

— Nei, sagði hún. — En þér ættuð að líta hér inn og leggja inn skilaboð....