: Daniel Zimakoff
: KF Mezzi 6-10
: SAGA Egmont
: 9788728194409
: 1
: CHF 4.80
:
: Erzählerische Bilderbücher
: Icelandic
: 161
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Hér er að finna bækur nr. 6-10 í vinsælu seríunni um fótboltaliðið KF-Mezzi.KF Mezzi er sería af fótboltabókum eftir Daniel Zimakoff. Serían fjallar um vinina Tómas, Sölva og Berg og gleði þeirra og vandamál með þjálfara, félaga og andstæðinga. Þeir taka þátt í að stofna fótboltaliðið KF-Mezzi, sem er blandað lið, því það eru líka stelpur með í liðinu.-

Daniel Zimakoff fæddist árið 1956 og er lærður bókasafnsfræðingur, en hefur starfað við ýmislegt, hann vann meira að segja sem leikari áður en hann gerðist rithöfundur. Frá árinu 1980 hefur hann skrifað fjöldann allan af barnabókum og vann til barnabókaverðlauna danska menningarmálaráðuneytisins árið 2004. Þegar hann er ekki upptekinn við að skrifa spilar hann fótbolta, blak, veggtennis, tennis, les bækur, horfir á sjónvarp og keyrir mótorhjól.

2. Kafli


Loksins var komið að stóra leiknum. Við vorum að mæta KFK, gamla félaginu mínu sem ég hætti í því þeir komu svo illa fram við mig. Hafi nokkurn tíma verið mikilvægt að vinna leik, þá var það þessi. Þetta gæti orðið sögulegur leikur í fleiri en einum skilningi. Á sorglegan hátt, því þetta gæti verið síðasti leikurinn sem Kári væri þjálfarinn okkar. Hann hafði kallað til fundar síðasta þriðjudag.

Sem betur fór var Bergur búinn að ná sér og var til í slaginn, þótt hann væri örlítið fölur.

Bergur, Sölvi og ég hjóluðum saman. Ég spurði Kristínu út í Brynju. Hún ætlaði að minnast á þetta við hana, en ég var ekkert búinn að heyra enn. Og í dag var Brynja ekki einu sinni á svæðinu. Hún hafði beðið um að fá að sleppa leiknum því hún væri eitthvað aum í hnénu.

„Viðverðum að vinna,“ sagði Bergur. „Annars þarf ég að hlusta á Axel það sem eftir er af árinu.“

„Og horfa framan í smettið á Felix þegar við þökkum fyrir leikinn,“ sagði ég.

„Við vinnum,“ sagði Sölvi. „Vinnum stórt. Ég hef góða tilfinningu fyrir leiknum.“

„Þú ert örugglega bara svangur,“ sagði Bergur.

 

Kári mætti snemma og kærastan var með honum. María. Hann hafði ekki heyrt í þeim frá Bandaríkjunum.

„Velkomnir strákar mínir!“ kallaði hann. „Snöggir í gallana í dag. Við þurfum að hita upp og tala um leikskipulagið.“

„Eins og alltaf,“ sagði Sölvi þurrlega.

Ég horfði á Axel og Felix. Þeir voru að tala saman fyrir utan. Ég velti fyrir mér hvað þeir væru að tala um. Kannski um hversu gróft þeir ætluðu að spila … og sigra okkur? Bara að dómarinn haldi ekki of mikið með heimaliðinu. Þegar foreldrar voru að dæma voru þeir oft meiri foreldrar en dómarar, sagði Kári einu sinni.

Ég vissi að Eiki og Sturla voru að vonast eftir sigri í dag. Þeim fannst KFK hafa komið illa fram við þá líka. Kári fór með sömu ræðu og á síðustu æfingu. Við yrðum að verja okkar helming vel, lofa þeim að sækja og svo taka skyndisóknir.

„Munið, við erum lið. Allir hjálpast að og ef þið verðið þreytt eru ferskir leikmenn á bekknum. Svona byrjum við: Bergur, mark. Eiki, Kristján og Marco og Símon í vörn. Á miðju erum við með Tómas, Kristínu og Sölva. Og lengst frammi, Zlatan. Sturla, Matti og Addi byrja á bekknum.“

Ég kinkaði kolli. Kannski ekki sterkasta byrjunarliðið, en næstum því. Ómar og Jói voru ekki með. Jói var í fermingu með fjölskyldunni.

Brynja og margir foreldranna voru að horfa á. Líka pabbi Marcos. Ég vonaði bara að hann yrði slakur í dag.

Kári sá til þess að við hituðum almennilega upp. Það var mikilvægt að koma púlsinum af stað svo við værum tilbúin þegar að dómarinn flautaði.

„Hver erum við …?Mezzi!

Við öskruðum extra hátt, svo KFK myndi heyra til okkar.

KFK vann hlutkestið og valdi boltann.

„Koma svo!“ öskraði ég á liðið okkar.

Dómarinn blés í flautuna. Leikurinn byrjaði.

Kári hafði rétt fyrir sér. KFK óð í sókn. Þeir sóttu fast og voru ákafir. Þeir fóru hart í tæklingar út um allan völlinn. Þeir ætluðu örugglega að reyna að hræða okkur og komast snemma yfir.

Eftir tvær mínútur reyndi á Berg. Góður snúningsbolti frá Axel. En Bergur náði að pota í hann með fingrunum og sá til þess að hann fór yfir markið. Þeir fengu horn. Felix tók spyrnuna. Boltinn fór í fjarendann á markinu, þar sem Axel birtist og skallaði hann beint í netið!

Fjandans! Undir, eftir aðeins þrjár mínútur. Og við vorum ekki einu sinni búin að fá boltann.

„Koma svo!“ kallaði Kári og foreldrarnir tóku undir með honum.

Ég hélt á boltanum að miðju og gaf hann á Zlatan.

„Skulum tækla þá,“ sagði ég með munninn næstum lokaðan. Sölvi og Zlatan kinkuðu kolli.

Smám saman unnum við okkur aftur inn í leikinn. Liðið lagði allt í þetta. Dómarinn áminnti Zlatan eftir að hann tæklaði Felix fremur harkalega.

Felix vældi í mér.

„Eruði að reyna að slasa okkur?“

Ég hunsaði hann og hélt augunum á boltanum. Við spiluðum kannski ekki fallegan bolta, en KF Mezzi var nú eins oft með boltann og KFK, og skömmu seinna fengum við fyrsta færið okkar.

Kristín fékk boltann frá Eika á hægri kantinum. Það fóru strax tveir varnarmenn í hana. Þeir óðu í hana og ég hljóp þangað til þess að bjóða upp á sendingu. Kristín tók skrefið, stöðvaði boltann, og gaf hann til baka með glans. Hún lék þvílíkt á varnarmennina. Svo spilaði hún mig lausan í horninu á vellinum.

Ég ákvað að taka skotið strax, fastan bolta sem fór því miður yfir markið.

„Gott skot!“ kallaði pabbi Marcos.

„Vel spilað Kristín!“ kallaði Kári.

Leikurinn gekk upp og niður. Við skiptum Kristínu og Kristjáni fyrir Sturlu og Matta.

Það var enn farið hart í tæklingar báðum megin, en við fengum ostsneiðina. Gula spjaldið. Sturla fór of hart í Felix, svo var alveg sanngjarnt að fá gult, þótt við kvörtuðum yfir því.

Einum færri í fimm mínútur.

KFK þrýsti okkur til baka. Við vorum með þétta vörn og hreinsuðum út, eins og á síðustu æfingu. Þrátt fyrir það fengu þeir nokkur færi og eitt dauðafæri … Felix tók fasta spyrnu og flata, en Bergur kastaði sér á boltann og greip hann án þess að gefa þeim horn.

Bergur lét boltann skoppa og leit upp. Hann sparkaði honum fram til Zlatans, sem var byrjaður að hlaupa. Varnarmaður úr KFK var tilbúinn. Hann ýtti Zlatan til hliðar og skallaði boltann burt. Hann lenti beint hjá mér.

Ég náði stjórn á boltanum, tók þríhyrningsspil með Sölva á miðjum vellinum á meðan ég beið eftir að Zlatan yrði aftur réttstæður. Zlatan benti fram og ég vippaði boltanum yfir tvo varnarmenn með fágaðri sveiflu.

Zlatan sá það og kom hlaupandi í áttina.

„Rangstæður!“ hrópuðu áhorfendur KFK.

Dómarinn hikaði. En það var alls ekki rangstæða, því Zlatan var á eigin helmingi þegar ég sendi boltann. Dómarinn blés sem betur fer ekki í flautuna.

Zlatan þaut í átt að markinu með tvo menn á hælunum. En hann var snöggur, með og án boltans. Þau myndu aldrei ná honum.

Markvörðurinn kom á móti honum til að þrengja færið. Zlatan þóttist ætla til hægri, en fór til vinstri í staðinn, hringsneri sér kringum markvörðinn og skaut boltanum af öryggi í...