: Victoria Holt
: Drottnari eyjunnar
: SAGA Egmont
: 9788728037058
: 1
: CHF 5.60
:
: Erzählende Literatur
: Icelandic
: 224
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Ellen Kellaway var alltaf fátæki ættinginn, stúlkan sem átti sér enga framtíð. En þegar hinn myndarlegi og ríki Phillip Carrington verður ástfanginn af henni og biður hennar, lítur út fyrir að líf hennar sé að breytast til hins betra. Örlögin verða hins vegar til þess að Ellen neyðist til að flytjast til frænda síns, Jago, sem býr í kastala á afskekktri eyju. Hún áttar sig fljótt á því að dularfullir atburðir eiga sér stað á eyjunni og sér til skelfingar uppgötvar hún að í kastalanum er herbergi sem hún hélt að væri aðeins til í martröðum sínum ...

Victoria Holt er eitt höfundarnafna Eleanor Alice Burford Hibbert. Hún fæddist í Bretlandi árið 1906 og lést 1993 og ritaði um 200 sögulegar skáldsögur um ævina undir hinum og þessum höfundarnöfnum, allt eftir umfjöllunarefni sagnanna. Meðal annarra höfundarnafna hennar eru Jean Plaidy og Philippa Carr. Verk hennar hafa unnið til verðlauna, verið þýdd á fjölda tungumála og hafa selst í yfir 50 milljón eintökum um allan heim.

Hjónabandstilboð


Draumurinn truflaði svefn minn nóttina fyrir kynningardansleik Esmeröldu. Það var ekki í fyrsta skipti, sem mig dreymdi þennan draum. Mig hafði dreymt hann öðru hvoru í öll mín nítján ár. Það er eitthvað hálf óhugnanlegt við þessa endurteknu drauma, af því að það virðist öruggt, að þeir hafi ákveðna þýðingu, sem maður verður að uppgötva.

Þegar ég vaknaði, skalf ég venjulega af ótta og ég gat aldrei verið fullkomlega viss um hvers vegna. Það var ekki beinlínis vegna draumsins sjálfs, heldur vegna tilfinningarinnar um yfirvofandi örlagadóm.

Í draumnum var ég í herbergi. Ég var farin að þekkja það vel, því að það var alltaf eins. Það var venjulegt herbergi. Þar var múrsteinsarinn, með sætum beggja vegna, rautt gólfteppi oð rauð gluggatjöld. Yfir arninum var mynd af stormi á hafinu. Nokkrir stólar voru þar og borð með snúnum fótum. Ég heyrði raddir í draumnum. Mér fannst, að verið væri að fela eitthvað fyrir mér og skyndilega kom þessi yfirþyrmandi tilfinning örlagadóms, svo að ég vaknaði í skelfingu.

Annað var það ekki. Stundum dreymdi mig hann ekki í heilt ár ogég var farin að gleyma honum, þá kom hann aftur. Smám saman tók ég eftir fleiri og fleiri atriðum, t.d. digrum böndunum, sem héldu rauðu tjöldunum, ruggustól í einu horninu og með þessum nýju smáatriðum virtist mér óttatilfinningin nálgast meira og meira.

Þegar ég vaknaði, velti ég því fyrir mér, hvað þetta táknaði. Hvers vegna var þetta herbergi orðið hluti af svefnheimi mínum? Hvers vegna var það alltaf sama herbergið? Hvers vegna fann ég til þessa vaxandi ótta? Ímyndun mín hafði skapað þetta herbergi, en hvers vegna hafði mig dreymt það árum saman? Ég hafði ekki talað um það við neinn. Á daginn virtist það svo heimskulegt, því að svona greinilegir draumar verða oftast leiðinlegir, þegar sagt er frá þeim. En einhvers staðar djúpt í vitund minni var sú sannfæring, að draumurinn táknaði eitthvað, og að undarlegur og mér enn óskiljanlegur kraftur væri að vara mig við yfirvofandi hættu og að ef til vill myndi ég einhvern tíma uppgötva það.

Ég var ekkert fyrir loftkastala. Lífið hafði verið mér of kuldalegt og alvarlegt til þess. Allt frá því að ég varð að þiggja náð og miskunn Agötu frænku, hafði ég verið áminnt um, að muna, hver staða mín væri. Að ég hafði setið til borðs með Esmeröldu dóttur hennar, að ég hafði einnig notið kennslukonu hennar, fengið að ganga um skemmtigarðinn undir leiðsögn barnfóstru hennar — allt þetta voru atriði, sem ég átti að vera eilíflega þakklát fyrir. Ég varð stöðugt að minnast þess, að ég var af hinni fyrirlitlegustu tegund, fátækur ættingi, og eina krafan sem ég átti á því að búa uppi, var að ég tilheyrðiFjölskyldunni. Og jafnvel sú krafa var hæpin, því að Agata frænka og mamma voru þremenningar, svo að skyldleikinn var ekki mjög náinn.

Agata frænka var ein af þessum risavöxnu konum — allt við hana var ofvaxið — líkaminn, röddin, persónuleikinn. Hún drottnaði yfir fjölskyldu sinni, sem var smávaxinn eiginmaður hennar — ef til vill ekki svo smávaxinn, enda þótt svo virtist í samanburði við hana — og dóttirin Esmeralda. William frændi, eins og ég kallaði hann, var auðugur maður og hafði víðtæk viðskipti. Voldugur utan heimilisins, held ég, þó að heima fyrir væri hann alveg undir stjórn konu sinnar. Hann var hæglátur og brosti alltaf til mín hálf viðutan, þegar hann sá mig, eins og hann myndi ekki alveg, hver ég væri og hvað ég væri að gera á heimili hans. Ég held, að hann hefði verið vinsamlegur maður, ef hann hefði haft þrótt til að standa gegn konu sinni. Hún var þekkt fyrir góðgerðarstörf. Vissir dagar vikunnar voru helgaðir þeim störfum. Þá sátu konur, ekki ólíkar henni sjálfri, í dagstofunni og ég varð oft að hjálpa til að bera fram te og kökur. Henni féll vel að hafa mig við slík tækifæri. „Við móðir hennar vorum þremenningar,“ útskýrði hún. „Mjög sorglegt. Það var ekki um annað að ræða en að veita barninu heimili.“ Stundum hjálpaði Esmeralda mér með kökurnar. Veslings Esmeralda! Engum hefði dottið í hug, að hún væri dóttirin í húsinu. Hún skvetti teinu á undirskálarnar og hellti einu sinni úr fullum bolla í kjöltu einnar af þessum góðgerðarsömu konum.

Agata frænka varð mjög leið, þegar fólk misreiknaði sig og hélt að Esmeralda væri fátæki ættinginn en ég heimasætan. Ég býst við, að staða Esmeröldu hafi ekki verið miklu betri en mín. Stöðugt glumdi við: „Réttu úr öxlunum, Esmeralda. Ekki hanga svona.“ Eða: „Talaðu almennilega. Ekki muldra.“ Veslings Esmeralda með þetta glæsilega nafn, sem alls ekki átti við hana. Augu hennar voru fölblá og hún var oft gráti nær, og með fínt, ljóst hár, sem alltaf virtist rytjulegt. Ég hjálpaði henni að reikna og gera stíla. Henni þótti mjög vænt um mig.

Það var eitt af því, sem kvaldi Agötu frænku, að hún skyldi aðeins hafa eignazt eina dóttur. Hún hefði viljað eiga mörg börn, sem hún hefði getað skipað fyrir og fært til eins og taflmenn á borði. Hún kenndi manni sínum um það, að hún átti aðeins eitt barn og það heldur veiklulega dóttur. Reglan var sú að allt sem gott var, stafaði frá Agötu frænku, en það, sem ekki var gott, var öðrum að kenna.

Drottningin hafði tekið á móti henni og þakkað henni fyrir góðgerðarstarf hennar meðal fátæklinganna. Hún skipulagði klúbba, þar sem þeim voru gerðar Ijósar skyldur sínar við sér betra fólk. Hún skipulagði skyrtusaum og gerð sirskjóla. Hún var óþreytandi. Og vissulega vafði hún sig í eilífri dyggðaþoku.

Það var ekki að furða, þótt bæði manni hennar og dóttur fyndist þau í skugganum. Þótt undarlegt væri, fannst mér það ekki. Ég hafði fyrir löngú staðfest, að góðgerðarstarf hennar veitti henni jafn mikla ánægju og öðrum og að þegar svo væri ekki lengur, myndi það hætta. Hún fann þennan skort á viðurkenningu hjá mér og harmaði það. Henni geðjaðist ekki að mér. Ekki svo að skilja, að henni þætti verulega vænt um neinn nema sjálfa sig. En einhvers staðar innst inni hlýtur hún að hafa metið þá staðreynd, að eiginmaður hennar lagði til þá fjármuni, sem gerðu henni fært að lifa þannig. Og Esmeralda var einkabarn hennar og þurfti því að veita einhverja umönnun.

Ég var hins vegar utanaðkomandi og ekki einu sinni auðmjúk. Hún hlýtur að hafa séð brosið, sem ég gat ekki dulið, þegar hún var að tala um nýjustu áform sín um góðverk við einhvern. Vafalaust fann hún hjá mér tregðu við að samlagast henni. Auðvitað sannfærði hún sjálfa sig um, að það...