: Erling Poulsen
: Óvæntir endurfundir (Rauðu ástarsögurnar 12)
: SAGA Egmont
: 9788728353844
: Rauðu ástarsögurnar
: 1
: CHF 4.80
:
: Erzählende Literatur
: Icelandic
: 190
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Faðir hennar féll í götubardaga á þriðja degi uppreisnarinnar og móðir hennar hvarf sporlaust í kjölfarið. Alein og yfirgefin leggur Cora Slezak upp í hættulega för þegar hún flýr úr ströngum skólabúðum. Einkennisklæddir menn eru á hverju strái og ferðir yfir landamærin eru áhættusamar. Þegar Cora kemst loks undir verndarvæng hinnar elskulegu Maríu telur hún sig vera hólpna en raunin gæti orðið önnur.

Erling Poulsen (1919-1995) var danskur blaðamaður og rithöfundur. Hann skrifaði fjölda skáldsagna í flokki afþreyingarbókmennta, sem nutu mikilla vinsælda á sínum tíma. Ásamt því að skrifa undir eigin nafni notaðist Poulsen einnig við dulnefnin Bodil Forsberg og Else-Marie Nohr. Þekktasta skáldaga hans er 'Drømmen om det hvide slot', sem var gerð að kvikmynd árið 1962 undir leikstjórn Anker Sørensen.

FYRSTI KAFLI


Hún var átta ára þegar yfirvöldin sendu hana til skólaheimilisins í Rilka-Lavina.

— Númer hvað ertu? spurði forstöðukonan, þegar hún kom.

— Ég heiti Cora, svaraði hún.

— Ég var ekki að spyrja um nafnið, sagði forstöðukonan. — Ég spurði um númerið.

— Ég heiti Cora, svaraði hún aftur. — Ég vil ekki heita númer, ég vil hafa nafnið mitt.

Hún fékk snöggan og harðan kinnhest. — Þannig er það ekki hér. Við sættum okkur ekki við ósvífni. Komdu!

Forstöðukonan stikaði stórum skrefum til skrifstofu sinnar, sem var nakin og köld, í ömurlegum timburbragga. Cora elti hana, grönn og hæglát, með annan vangann eldrauðan eftir löðrunginn.

— Stattu þarna, sagði forstöðukonan. — Stattu bein! Og haltu þér saman! Það er eitt af því fyrsta, sem þú átt að læra: Að halda þér saman, þangað til þú ert spurð. Ég endurtek: Þangað til þú ert spurð. Hvað er númerið.

— 1500, svaraði Cora lágt.

Konan kinkaði kolli byrst og leitaði í blöðum á borðinu. Hún fann það, sem hún leitaði að, græna möppu, sem hún las úr.

— Númer 1500, Cora Slezak, fædd 3. maí . . . dóttir Jorni Slezak, blaðamanns og Nínu Slezak, kennslukonu. Hann féll í götubardögum í Ponti Karini á þriðja degi uppreisnarinnar. Hún hvarf sporlaust eftir 10. október.

Hún leit upp frá blöðunum og horfði á Coru, dimmum og fjandsamlegum augum. — Faðir þinn er dáinn. En móðir þín? Er hún lifandi? Veiztu það?

Cora hristi höfuðið.

— Svaraðu, þegar þú ert spurð, hrópaði forstöðukonan. — Svaraðu hátt og skýrt og kurteislega. Er mamma þín lifandi? Flúði hún úr landi?

— Ég veit það ekki, svaraði Cora. — Ég man ekkert frá þeim tíma. Ég var svo lítil. Ég man bara, að ég átti bangsa og mynd.

— Mynd? Af hverjum?

— Af mömmu. Ég fékk að hafa hana. En þeir tóku bangsann minn. Og þeir fóru með mig eitthvað þangað sem voru fleiri börn, sem áttu enga foreldra.

Konan hélt áfram að lesa í grænu möppunni. Öðru hvoru gaf hún frá sér reiðihljóð, meðan á lestrinum stóð.

— Það er þá þess vegna, sem þú hefir verið send hingað. Þú ert ein af þeim. Uppreisnarmaður, ha? Flúið tvisvar frá barnaheimilinu í Ponti Karini. Flúið þrisvar frá stofnuninni í Buda-Ranzi. Og fjórum sinnum frá skólaheimilinu í Kitkov. Bölvaður uppreisnarseggur. En bíddu bara. Við skulum kenna þér betri siði hér.

Hún lagði frá sér grænu möppuna og sagði: — Stattu hjá glugganum.

Cora hlýddi.

— Líttu út. Segðu mér, hvað þú sérð.

Cora sagði það. Auða jörð kringum langa timburbragga og gráklætt fólk, sem hamaðist með haka og skóflur.

— Hvað fleira? Hvað sérðu fleira?

— Nokkur börn, sagði Cora. — Þau eru á hergöngu. Einkennisbúinn maður hrópar, hvað þau eigi að gera.

— Hvað fleira?

— Gaddavír. Það er gaddavírsgirðing utan um allt.

— Og utan við gaddavírinn?

— Þar eru aðrir einkennisklæddir menn á vakt með hunda og byssur.

— Byssur? Það heita hríðskotabyssur. Segðu það.

— Hríðskotabyssur.

— Segðu það aftur. Segðu það hátt og skýrt og kurteislega. Hríðskotabyssur eru til að drepa með, ef einhver reynir að flýja. Segðu það!

Cora gerði það.

— Rétt! Komdu hingað!

Cora elti hana að skáp innst í skrifstofunni. Forstöðukonan tók stílabók og blýant úr skápnum.

— Þú ert eins og fólkið þarna úti, sem er í nauðungarvinnu. Þú átt að læra sömu lexíu og þú átt að læra hana fljótt. Hérna.

Hún rétti Coru stílabókina og blýantinn.

— Skrifaðu það, sem ég segi þér. Setztu þarna við borðið. Skrifaðu skýrt og greinilega: Ég elska landið mitt.

Cora hlýddi.

— Skrifaðu: Ég elska skólann minn.

Cora skrifaði það.

— Og svo: Ég skal aldrei framar flýja.

Cora skrifaði það.

Forstöðukonan leit á það, sem hún hafði skrifað og kinkaði kolli, kuldalega en viðurkennandi. — Taktu eftir. Þetta á að vera lexían þín til morguns. Skrifaðu þetta 100 sinnum. Vel og fallega. Með stórum og greinilegum bókstöfum. Ég elska landið mitt. Ég elska skólann minn. Ég skal aldrei framar flýja. 100 sinnum. Skilurðu það?

— Já.

— Gott. Farðu þá. Farðu í bragga númer 8, spurðu eftir Olgu Semjov kennslukonu og gefðu þig fram við hana. Þú veizt, hvernig þú átt að tilkynna þig. Þú stendur bein, segir númerið þitt og þegir svo, þangað til þú verður spurð. Farðu svo.

— — —

Nákvæmlega klukkan 22 þennan sama dag lágu allir nemendur skólaheimilisins í svefnsalnum í bragga númer 8. Flest voru sofnuð, þegar kennslukonan, Olga Semjov, fór eftirlitsferð tíu mínútum síðar og bauð góða nótt, gleðisnauðri röddu.

— Pssst!

Þögnin var rofin um leið og kennslukonan var farin út.

— Pssst! Þú þarna nýja. Númer 1500.

Hvíslandi röddin barst frá næsta rúmi við Coru. — Pssst. Ertu sofandi?

— Nei, svaraði Cora.

Hún lá í hnipri undir teppinu með andlitið vott af tárum og þrýsti annarri hendinni að munninum.

— Ertu að gráta?

— Nei.

— Ertu búin að skrifa hundrað síðurnar fyrir forstöðukonuna?

— Nei.

— Oh, að þú skulir þora. Þú mátt búast við góðu á morgun, þegar hún sér, að þú hefir ekki skrifað það. Hún lemur þig. Hún er verst af þeim öllum. Stundum lemur hún okkur þar til blæðir . . .

Cora lokaði augunum og kreppti hnefana. Hún hugsaði um lexíuna. Ég elska landið mitt. Ég elska skólann minn. Ég skal aldrei framar strjúka. Ég skrifa það ekki, sagði hún við sjálfa sig og skalf af þrjózku. — Ég skrifa ekki í eitt einasta skipti. Það er ekki satt. Ég vil ekki skrifa neitt, sem ekki er satt . . .

Hún sofnaði, en vaknaði tveim stundum síðar, sjúk af ótta. Hana hafði dreymt, að forstöðukonan væri að berja hana . . . berja og berja, unz blóðið lagði úr nefi og munni.

Hún gat ekki sofnað aftur. Klukkustundum saman lá hún vakandi með ótta sin.

Hún heyrði hund spangóla. Svo heyrði hún telpuna í næsta rúmi tala upp úr svefninum. Önnur brast skyndilega í skerandi svefnþrunginn...