: Lars Saabye Christensen
: Hálfbróðirinn
: SAGA Egmont
: 9788727086170
: 1
: CHF 7.20
:
: Historische Romane und Erzählungen
: Icelandic
: 598
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Örlagasaga fjögurra kynslóða sem eru markaðar af átakanlegum atburði. Veru Jebsen er nauðgað en hún segir engum frá, allt þar til Fred sonur hennar fæðist. Atburðurinn hefur afdrifarík áhrif á ævi Freds og fjölskyldu hans, en sagan er sögð frá sjónarhóli Barnum bróður hans. Inn í frásagnir Barnums af sérstöku sambandi þeirra bræðra tvinnast þroskasaga hans sjálfs og bréf langafa hans til langömmu hans frá Norður-Íshafinu og Grænlandi. Sagan segir jafnt frá bræðrunum og ævi formæðra þeirra, sem leiðir allt að sömu endalokunum. Inn í átakanlegan söguþráðinn tvinnast svo húmor höfundar, sem gerir lesandanum ómögulegt að leggja bókina frá sér. Bókin hefur unnið til fjölda verðlauna, meðal annars bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, og verið gerð að vinsælli sjónvarpsþáttaröð, sem var tilnefnd til Prix Europa, evrópsku sjónvarpsverðlaunanna.

Lars Saabye Christensen (1953) er norsk/danskur rithöfundur og einn vinsælasti norski rithöfundurinn af sinni kynslóð. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir skrif sín og hefur verið aðlaður af bæði norsku og frönsku ríkisstjórnunum. Árið 2018 fékk hann Amanda kvikmyndaverðlaunin fyrir framlag sitt til norskrar menningar, en hann er einnig afkastamikill handritshöfundur.

(formáli)


– Kærar þakkir!

Ég tyllti mér á tá, teygði handlegginn eins langt og ég gat og Esther gaf mér til baka, tuttugu og fimmeyring af krónu. Hún beygði sig út um þrönga lúguna og stakk hendinni í ljósu krullurnar mínar og hélt henni þar um stund, mér var ekkert sérstaklega um það gefið, en þetta var ekki í fyrsta skipti og ég var farinn að venjast þessu. Fred hafði snúið við okkur baki fyrir löngu, troðið kandíspokanum í vasann og ég sá á göngulaginu að hann var reiður yfir einhverju. Fred var reiður og ekkert gerði mér eins órótt. Hann nuddaði skónum við gangstéttina eins og til þess að ryðja sér leið, kýldi höfuðið niður á milli kýttra herðanna, eins og hann væri að berjast móti stormi af öllu afli, en þetta var bara lygn eftirmiðdagur í maí, að auki laugardagur, og himinninn yfir Marienlyst-hverfinu var skínandi og blár og valt hægt eins og risastórt hjól í átt að skóginum handan við borgina. – Er Fred farinn að tala aftur? hvíslaði Esther. Ég kinkaði kolli. – Hvað sagði hann? – Ekkert. Esther flissaði. – Flýttu þér nú á eftir bróður þínum. Svo hann borði ekki allt.

Hún tók höndina úr hárinu á mér og þefaði andartak af henni, en ég hljóp af stað til þess að ná Fred, og það er þetta sem ég man, þannig starfar minnið, ekki gulir fingur gömlu konunnar í krullunum mínum, heldur að ég hleyp og hleyp á eftir Fred, hálfbróður mínum, og það er næstum ómögulegt að ná honum. Ég er litli, litli bróðirinn og ég undrast af hverju hann er svona reiður, ég finn hjartað slá í brjóstinu og heita, hráa lykt í munninum, kannski vegna þess að ég hef bitið mig í tunguna þegar ég hljóp út á götuna. Ég kreppi hnefann um skiptimyntina, heitan peninginn, og ég hleyp á eftir Fred, háum og dökkum í allri birtunni í kringum okkur. Klukkan við norska ríkisútvarpið er átta mínútur gengin í fjögur og Fred er þegar sestur á bekkinn við runnana. Ég hleyp eins hratt og ég get, yfir Kirkeveien, það er næstum engin umferð af því að það er laugardagur, aðeins líkbíll sem keyrir framhjá, allt í einu drepur hann á sér á miðjum gatnamótunum og gráklæddur bílstjóri kemur út og lemur og lemur á vélarhlífina og bölvar, og inni í bílnum, í aflöngu farangursrýminu fyrir aftan sætin, er hvít kista, en hún er örugglega tóm, enginn er jarðaður á laugardagseftirmiðdegi, grafararnir eiga örugglega frí núna, ef einhver liggur þarna, þá gerir það örugglega heldur ekkert til, því þeir látnu hljóta að hafa nógan tíma, þannig hugsa ég, ég hugsa þannig til þess að hafa um eitthvað annað að hugsa, og gráklæddi bílstjórinn, með svarta hanska, kemur bílnum loksins aftur í gang og hverfur í átt að Majorstua-stöðinni. Ég dreg djúpt andann í þungri lykt af pústi og bensíni og hleyp yfir grasið, framhjá gangbrautum og umferðarljósum og gangstéttum, tilbúnum á þessum stað, eins og í bæ fyrir dverga, og einu sinni á ári var farið með okkur þangað til þess að læra umferðarreglurnar af hávöxnum lögregluþjónum í einkennisbúningum og með þröng, breið belti. Það var þarna, í litla bænum, sem ég hætti að stækka. Fred situr á bekknum og lítur í allt aðra átt. Ég sest við hliðina á honum og við erum bara tveir hérna núna, þennan laugardagseftirmiðdag í maí.

Fred stingur hrjúfum kandísmola í munninn og sýgur lengi, það kraumar í andlitinu á honum, ég sé í brúnt munnvatn sem er alveg að renna af vörunum. Augu hans eru dökk, næstum svört, og þau titra, augu hans titra. Ég hef séð þetta áður. Hann þegir. Dúfurnar vagga hljóðlaust í möttu grasinu. Ég bíð. Og ég held þetta ekki lengur út. – Hvað er að? spyr ég. Fred kyngir og það fer kippur um grannan háls hans. – Ég tala ekki með munninn fullan af mat. Fred treður meiri kandís upp í sig og bryður molann hægt. – En af hverju ertu svona reiður? hvísla ég. Fred klárar kandísinn, krumpar brúnan pokann saman og fleygir honum út á gangstéttina. Mávur stingur sér, hræðir dúfurnar, sker í malbikið skrækjandi og hefur flugið aftur í áttina að ljósastaur. Fred strýkur toppinn aftur, en hann fellur aftur niður á ennið og hann leyfir honum að hanga þannig. Loksins segir hann eitthvað. – Hvað sagðirðu við kellinguna? – Við Esther? – Hverja aðra? Eruð þið farin að þúast? Ég er svangur og mér er flökurt. Mig langar að leggjast niður í grasið, sofna þar, hjá dúfunum. – Ég held ég muni ekki hvað ég sagði. – Þú hlýtur að gera það. Ef þú hugsar þig svolítið um. – Ég sver það, Fred. Ég man það ekki. – Hvers vegna man ég það þá? Úr því að þú manst það ekki? – Ég veit það ekki, Fred. Er það þess vegna sem þú ert reiður? Hann leggur höndina allt í einu á höfuð mitt. Ég kikna. Höndin er kreppt. – Ertu vitlaus? spyr hann. – Nei. Ég veit það ekki, Fred. Vertu nú almennilegur. Gerðu það? Hann lætur hnefann liggja í krullunum. – Gerðu það? Þú ert volgur, litli minn. – Ekki tala svona. Gerðu það. Hann lætur fingurna renna niður andlitið á mér, lyktin er sæt, eins og hann sé að bera á mig lím. – Á ég að segja þér nákvæmlega hvað þú sagðir? – Já. Gerðu það. Segðu það. Fred hallar sér að mér. Ég get ekki horfst í augu við hann. – Þú sagðir kærar þakkir.

Mér var eiginlega létt. Ég hélt að ég hefði sagt eitthvað annað sem hefði getað verið miklu verra, eitthvað sem ég hefði aldrei átt að segja, sem ég hefði misst út úr mér, orð sem ég vissi ekki að væru til, hórugat. Ég hóstaði. – Kærar þakkir? sagði ég það? – Já. Þú sagðir svei mérkærar þakkir! Fred hrópaði, þótt við sætum á sama bekk, þétt hvor upp við annan.

Kærar þakkir! hrópaði hann. Ég vissi ekki alveg hvað hann átti við. Og nú varð ég enn hræddari. Mér var svo mál að komast á klósett. Ég hélt niðri í mér andanum. Mig langaði svo til að segja það rétta en ég vissi ekki hverju ég ætti að svara, því ég vissi ekki hvað hann átti við.Kærar þakkir. Og ég gat heldur ekki farið að hlæja núna. Þá yrði Fred aðeins enn reiðari, eða hann hlær að mér, og það var næstum verst af öllu, að hann hlæi að mér. Ég hnipraði mig saman. – Og svo? hvíslaði ég. Fred stundi. – Og svo? Ég held að þú sért vitlaus þrátt fyrir allt. – Ég er ekki vitlaus, Fred. – Hvernig veistu það, ha? Ég varð að hugsa mig um. – Mamma segir það. Að ég sé ekki vitlaus. Fred þagði svolitla stund. Ég þorði ekki að líta á hann. – Og hvað segir mamma um mig, ha? – Það sama, sagði ég hratt....