: Jón Trausti
: Samtíningur
: SAGA Egmont
: 9788728281635
: 1
: CHF 7.20
:
: Erzählende Literatur
: Icelandic
: 493
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
'Allir vissu að þessi langi Jónsbókarlestur, með tilheyrandi sálmasöng og bæna, var síðasta þrautin, síðasta járnhurðin, sem lyfta þurfti, áður en gengið var inn í jólagleðina.' Í þessu smásagnasafni má finna verk eftir Jón Trausta sem birtust hér og þar yfir mörg ár. Sögur úr tímaritum, safnritum og dagblöðum. Í bindinu má finna fimm ljúfar jólasögur, bernskuminningar og aðrar sögur sem sýna hæfni Jóns Trausta til að blanda saman grípandi sögum og sannfærandi samfélagslýsingum.

Jón Trausti er skáldanafn Guðmundar Magnússonar. Hann ólst upp við fátækt hjá foreldrum sem voru í Húsmennsku. Eftir fermingu lærði hann prentiðn og í kjölfar þess fékk fátæki sveitadrengurinn fjölmörg tækifæri. Hann gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1899 og átti farsælan feril sem rithöfundur en sumir telja hann vera fyrsta metsöluhöfund Íslands. Árið 1918 var Guðmundur meðal þeirra 484 Íslendinga sem létust úr spænsku veikinni.

VORHARÐINDI


Þetta er engin skáldsaga, ekkert fóstur ímyndunargáfunnar og engin leit í fræðum liðinna alda. Það er bernskuminning, hálfóljós, en þó í aðalatriðum mér svo hugstæð, að ég hefi ekki frið fyrir henni. Hvað eftir annað kemur hún fram í huga mínum og minnir mig á að festa sig á blað, einhvern tíma áður en það sé orðið of seint. En ég var svo ungur þá, að minningarnar eru ekki með öllu skýrar. Því bið ég þá afsökunar, sem betur kunna að muna, ef ég skyldi fara rangt með eitthvað.

Að svo miklu leyti sem þetta er saga, þykir mér það leitt, að hún er ekki af íslenzkum manni, heldur útlendingi — dönskum skipstjóra á litlu dönsku skipi, sem „Christine“ hét og Gránufélagið þá átti. Ég hefði feginn viljað unna einhverjum landa minna þess orðstírs, sem þessi maður vann sér, en það gæti ég ekki, nema taka hann frá þeim, sem á hann. Því fer þó betur, að margir landar hafa unnið sér mikinn orðstír, ef til vill meiri en þennan, en ekki verður nema frá einum sagt í einu.

I.


Það var vorið 1882.

Vorið það og sumarið er eitt það allra bágasta, sem komið hefir yfir Ísland í minni þeirra manna, sem enn lifa. Og þegar ég nú renni augunum yfir árbók þess árs í „Almanaki Þjóðvinafélagsins“, eins og hún er þó fáorð, gengur nærri því fram af mér.

Snemma í apríl (á einmánuði) rak hafísinn að landi. Ísbreiðan náði frá Berufirði norður fyrir land og allt vestur að Horni. Allir firðir voru fullir, og ísbreiðan náði 15 til 20 danskar mílur út á haf, að því er haft var eftir sjómönnum.

23. maí, á miðjum sauðburðinum, hófst grimmasta stórhríð um allt Norðurland og stóð látlaust í 3 sólarhringa. Hörkufrost fylgdi og mikil veðurhæð, svo að ísinn lamdist upp að landinu og fraus saman. Þá dagana kvöddu margir þennan synduga heim, bæði menn og málleysingjar. 21. júní var aftur stórhríð fyrir norðan, og enn þá 6. júlí. Nærri má því geta, hvernig um grasvöxtinn hefir farið. Lömbin hrundu niður jafnóðum og þau komu úr móðurlífi, og víða hrundu ærnar niður á eftir.

Ofan á þetta bættust mislingarnir, sem breiddust um mestallt landið um sumarið.

Það var þetta sumar, sem skáldið og mannvinurinn William Morris hét á enska mannúð Íslendingum til hjálpar, og samskot voru hafin undir forustu borgarstjórans í Lundúnum.

Þannig er saga þessa hörmungasumars í fám og skýrum dráttum.

II.


Ég var ekki nema 9 ára, en mér líða sízt úr minni bágindin, sem þá voru á Melrakkasléttunni. Skaginn var umflotinn af ís, sem hvergi sá út yfir. Gaddur var yfir alla jörðina. Það, sem sólin bræddi á daginn — þegar hennar naut —, hljóp í svell á nóttunni. En sólarinnar naut illa. Þótt heiðríkt væri yfir, lá jafnan einhver frostmóða yfir jörðinni og yfir ísnum, sem gerði geislana daufa. Rigning kom aldrei, þíðviðri kom aldrei. Stundum sló yfir svartaþoku. En það var ekki hin milda, hlýja vorþoka, sem safnar í sig sólargeislum og bræðir snjóinn, svo að hjarnið drafnar niður. Nei, þessi þoka var full af beittum ísnálum, sem hörundið sveið undan.

Rindana með sjónum og hólana í túnunum, sem fyrst komu upp úr fyrir sólbráðinni, kól undireins, svo að engin von var þar um stingandi strá næstu árin.

Svo kom þriggja daga stórhríðin, sem áður er getið, og slétti vandlega yfir alla þessa auðu og köldu bletti — og hræin af öllu, sem þar hafði króknað.

Æðarfuglinn var þá byrjaður að setjast upp í hólmana — þessa yndislegu hólma, sem eru höfuðprýði Sléttunnar. Kollurnar hreiðruðu sig á klakanum, settust á eggin sín og létu skefla yfir sig. Þar sátu þær í snjóhúsi, sem skapaðist af ylnum upp af þeim sjálfum; það bjargaði sumum þeirra. Hinar fundust dauðar á hreiðrunum, frosnar í hel. Mestur hluti eggjanna varð að fúleggjum.

Um manneskjurnar ætti ég sem fæst að tala. Ef ég segði allt, sem satt er, mundu fáir trúa mér. Þar að auki mundi mér verða borið á brýn, að ég níddi landið og gerði of mikið úr harðindunum. Enginn veit til fullnustu, hvað það er að eiga bágt, nema sá, er sjálfur hefir reynt það. Hjá þessari móðursjúku þjóð má ekkert satt segja — um að gera að dylja allan sannleika, sem mönnum finnst sár í svipinn. Því fer margt sem það fer. Ég hefi þó ekki þagað. Það, sem læknirinn segir í sögunni „Þorradægur“, stendur á dýrkeyptri reynslu frá þessum árum.

Fátæklingarnir flosnuðu upp hópum saman. Heilar fjölskyldur fóru á sveitina eða verganginn — sem eiginlega var eitt og hið sama. Ég man eftir, þegar þessir aumingjar voru að dragast bæ frá bæ, bláir í framan af megurð og máttleysi, með skyrbjúginn í tannholdinu og sinakreppuna í hnésbótunum — þar til þeir lögðust fyrir á einhverjum bænum, komust ekki lengra. Þar urðu þeir að deyja eða hjarna við. Flestir hjörnuðu við og — voru sendir til Ameríku um sumarið.

Engin björg fékkst, nema fáeinir, gamlir ólseigir landselir, sem skriðu upp á ísinn og voru rotaðir þar. Ketið af þeim var svart eins og tjara og gat aldrei soðnað. En það þótti gott samt, því að það var þó nýtt. Saltketið, sem menn áttu frá vetrinum, brenndi menn í munninn og hangiketið gátu menn ekki melt, þótt til væri, því að allir voru í raun og veru orðnir veikir af harðréttinu. Og svo var þetta ekki til nema hjá þeim, sem bezt bjuggu. Hinir urðu að láta sér nægja að sleikja um beinin á skepnunum, sem þeir misstu, eða leita sér saðningar í skemmdum eggjum eða seigu selaketi. Kaupstaðurinn var allslaus — enginn kornmatur af neinu tagi, ekkert kaffi, enginn sykur. Ekkert, alls ekkert, sem fólkið þarfnaðist, ekki svo mikið sem saltlúka til að sá í matinn. Ekkert brennivín heldur eða tóbak. Það þykir ef til vill goðgá að minnast á tóbak og brennivín í þessu sambandi. En ég held þó, að ekki hefði mörgum manninum veitt af þeirri hýrgun, sem þetta veitir hvort tveggja, því að ekki var ástand sálarinnar stórum betra en líkamans. Þunglyndi, deyfð og vonleysi fylgja ætíð harðrétti og skyrbjúg. Menn geta nú sjálfir hugsað sér ástandið: Enginn biti af brauði — síðasta brauðið var víða blandað meira en til hálfs með marguppsoðnu kaffigromsi, sem engin næring var í, til að spara mélið. Svo þraut bæði mélið og gromsið, og þá var ekkert „brauð“ lengur. Enginn grautur var til, því að engin grjón voru til að búa hann til úr og ekkert mél til að kasta út á hann. Menn urðu að súpa soðið með selaketinu. Ekkert kaffi var til að yla sér á á...